Við vorum búin að vera úti í 5 vikur. Hamingja, hiti, ný lönd að skoða. Það hafði varla rignt allan þann tíma, en þetta kvöld var stormur, hvínandi rok, rigningin helltist niður líkt og úr sturtuhaus, þrumur drundu og eldingar lýstu upp himininn. Mamma bað um að fá að hringja, klukkan var tólf að miðnætti hjá mér, þrjú um nótt heima. Eftir fréttirnar stóð ég úti á verönd með lak vafið utan um mig. Ég veit ekki hvað ég stóð lengi. Hann kom með teppi til að setja yfir mig. Samt var kvöldið heitt. Ég lét rigninguna falla á andlitið, þung og blaut. Við þurftum að snúa heim degi síðar. Leiðin heim er óskýr, ég man hana ekki alla. Svefnleysi, grátur, hiti, svo kuldi. Ég sá í gegnum hluti og manneskjur, og sá allt óskýrt. Ég var vakandi í draumsvefni.

Ég leitast eftir því að skapa stemmingu með verkum mínum, og reyni að fá áhorfandann til að upplifa ákveðna tilfinningu, eða labba inn í hugarheim minn. Verkin eru mis persónuleg, sum eru tekin upp frá tvívíðum teikningum sem enda í þrívídd, og skapa oft annan heim eða lífveru, eitthvað sem er okkur ótengt eða er jafnvel ekki til í alvörunni, en svipar til Jarðarinnar og náttúrunnar eins og við þekkjum hana.