Umvefur: Samspil ljósmyndar, textílhönnunar og getgátuhönnunar

HönnunarMars 2022
 Guðný Sara ljósmyndaði endurunnið plast sem býr yfir mögnuðu, náttúrulegu útliti sem blekkir augað, en myndirnar voru teknar í endurvinnslustöð Pure North í Hveragerði. Ljósmyndirnar voru unnar í eina heildarmynd og nýttar í stafræna efnisprentun og vefstól til textílhönnunar. Útkoman er nákvæm eftirmynd heildarmyndar í efni. Umvefur minnir okkur á hömlulausar aðgerðir og áhrif mannsins á umhverfið og náttúruna. Í árhundruð hefur maðurinn á sama tíma litið til náttúru fyrir listrænan innblástur. Textíllinn er ákveðið framhald af því; framtíðarsýn á mögulega nýja náttúru úr ónáttúrulegum efnum og hvernig við munum minnast hennar í gegnum gamlar hefðir frásagna í textíl. Plast verður hinn nýi fagurfræðilegi innblástur; heimur hins manngerða og þess náttúrulega renna saman. Úr verður getgátuhönnun fyrir íslenskt heimilislíf sem skapar hversdagslegt umhverfi til umræðu um þann veruleika sem við búum við og framtíðina. Hönnunin býður upp á ýmsa möguleika til frekari útfærslna og ýtir ekki síður undir þekkingu á mikilvægi endurvinnslu ásamt því að minna okkur á að hugsa vel um umhverfi og náttúru.