Þegar við finnum ilmvatnslykt móður okkar sem hún hefur gengið með í áratugi, þegar við sjáum sófa með sama munstri og var heima hjá ömmu og afa, þegar við sjáum bollastell sem er alveg eins og það sem við vorum með uppi í sumarbústað á sínum tíma, þegar við finnum lykt af fiskafóðri mörgum árum eftir að fiskurinn okkar dó. Hvað gerist?
Við ferðumst aftur í hús fortíðarinnar, heimilin. Hugur okkar reikar aftur, hann býr til skýra, sterka ímynd af einhverju sem var, en er ekki lengur. Fortíðarþrá. Hugurinn vinnur úr því sem skilningarvitin hafa varðveitt djúpt í minni okkar. Svo djúpt að við vissum ekki að minningin væri enn til.
Heimilið er eitthvað sem við tengjum flest við þægindi, en einnig stað frelsis og stjórnunar.
Hvernig geta leyniherbergi, herbergi sem hafa gufað upp, orðið að heimili ógleymanlegrar fortíðar? Af hverju komum við okkur stundum fyrir í skammtímaskjóli í okkar nánustu dagdraumum þar sem dyggðir okkar byggjast ekki á hlutlausum grunni og ró færist yfir okkur?
Við sjáum oft bara það sem við viljum sjá og heyrum oft bara það sem við viljum heyra.
Verkin mín fjalla um minningar, sögur og sviðsetningar. Ég reyni að stjórna andrúmslofti með húsgögnum úr mínu eigin lífi, lyktum og hitastigi. Það að geta tekið yfir öll skilningarvit hjá áhorfenda er aðferð sem mér finnst spennandi.
Í mörgum verka minna stúdera ég ákveðið sjónarhorn, nánast eins og að vera fluga á vegg, eða ganga inn í aðstæður þar sem reynt er að líkja eftir minningu, atburði eða viðburðarrás á einhvern hátt, og áhorfandi sér ummerki af einhverju sem hefur gerst. Innsetningarnar mínar eru oftast á persónulegum nótum, tilfinningaþrungnar og oftar en ekki ljóðrænar og melankólískar, en hafa þó þróast frá persónulegum sögum yfir í tilbúnar sögur eða frásagnarhefðir, þá sérstaklega í auglýsingum, og hvernig ímynd okkar er orðin að markaðsvöru, lífið er eintómur leikur, líkt og grískur harmleikur, og hvernig við sviðsetjum sjálfið.